Hugmyndafræðin

Leiðin til betri heilsu

Heilbrigður lífsstíll er alltaf grunnurinn sem við byggjum á og hér færðu vandaða fræðslu um hvað þú getur gert. Við þurfum öll að næra okkur vel og fallega, finna hreyfingu við hæfi, fá endurnærandi svefn og upplifa góða andlega líðan. Þetta er hægt að gera á ótal mismunandi vegu og kúnstin er að finna leiðina sem hentar þér best.

Ef þörf er á sérhæfðri aðstoð með lyfjum eða efnaskiptaaðgerð er mikilvægt að skilja vel hvernig þessi hjálpartæki virka og hvernig á að vinna með þau til að fá bætta heilsu til langframa. Það er fagnaðarefni að við búum nú við þá góðu stöðu að aðgengi að efnaskiptaaðgerðum er auðvelt og hægt er að nýta lyfjameðferð sem hjálpar okkur að vinna með sjúkdóminn offitu. Á sama tíma verður flóknara að finna hvaða meðferð hentar hvaða einstaklingi og hvar bestu meðferðina er að finna. Mikilvægt að þessi öflugu verkfæri séu rétt notuð og leiði raunverulega til betri heilsu til langstíma en snúist ekki upp í andhverfu sína og skaði heilsu.

Sjúkdómurinn offita er flókinn og tekur til margra líffærakerfa og hefur bæði áhrif á líkama og sál auk þess sem umhverfi og erfðir koma við sögu. Það er kannski þess vegna sem meðferð hans, forvarnir og fræðsla hefur átt erfitt uppdráttar í heilbrigðiskerfinu því hann passar illa í þau box sem þar tíðkast.
Sjúkdómurinn krefst heildrænnar nálgunar með einstaklinginn sem hann ber í forgrunni og þarfnast ævilangrar meðferðar. Sú nálgun er sem betur fer að ná betri fótfestu og er þar ekki síst að þakka einstaklingum sem risið hafa upp og sætta sig ekki við að fá ekki heilbrigðisþjónustu við hæfi eða njóta bestu meðferðar sem völ er á. Stofnun sjúklingasamtaka er mikið framfaraskref og hefur leitt til vitundarvakningar og betri þjónustu um alla Evrópu. Það sama hefur verið uppi á teningnum með sjúkdóminn fitubjúg sem oft skarast við offitu og aukin vitundarvakning er um. Betri fræðsla og fagleg umfjöllun minnkar fordóma bæði meðal almennings og innan heilbrigðiskerfisins og við erum vongóð um að bjartir tímar séu framundan.
Við höfum verið með námskeiðin okkar í nokkur ár í nokkrum mismunandi útgáfum og breyttum yfir í netnámskeið árið 2020. Það virðist vera besta leiðin þar sem einstaklingar geta horft aftur og aftur á námsefnið, horft þegar þeim hentar og tileinkað sér efnið á sínum hraða. Við erum ólík og á ólíkum stað í okkar heilsuferðalagi og þess vegna gefur námsefnið innsýn í mismunandi leiðir sem hægt er að vinna markvisst með.

Framundan eru heilmiklar vangaveltur, fræðsla, sjálfsskoðun, ákvarðanatökur, áætlanagerð og framkvæmd. Við vonum að námsefnið sé gagnlegt en um leið verði hægt að njóta ferðalagsins. Eins og í öðrum ferðalögum geta skipst á skin og skúrir. Verkefnið okkar að bæta heilsuna er stundum skemmtilegt og auðvelt en stundum erfitt og jafnvel hundleiðinlegt. Fyrir suma nægir að tileinka sér efnið gegnum netnámskeiðin á meðan aðrir þurfa stuðning og handleiðslu til að þekkingin leiði til þeirra breytinga sem vænst er. Þann stuðning er hægt að fá hjá okkur í hóptímum, spjalltímum á netinu og viðtölum sem við útskýrum betur á námskeiðunum enda eru námskeiðin alltaf fyrsta skrefið.

Námskeiðin okkar eru lifandi og í stöðugri uppbyggingu. Við sýnum hér efni sem hefur verið tekið upp undanfarin misseri ásamt nýju efni. Við erum sífellt að vinna að nýju efni og útbúa ný verkfæri sem hægt er að nota og hlökkum til að vinna þetta verkefni með þér.

Shopping Cart