Undirbúningur fyrir efnaskiptaaðgerð. Ef þú ert að velta fyrir þér hvort efnaskiptaaðgerð (magaermi eða magahjáveita) sé rétta meðferðin fyrir þig þá er þetta námskeið sem gæti hentað þér. Ef þú óskar eftir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna slíkrar aðgerðar þá er þetta námskeið nauðsynlegur undirbúningur. Sjá skilyrði fyrir greiðsluþátttöku SÍ hér.
Námskeiðið Grunnur að betri heilsu er innifalið enda er mikilvægt gott jafnvægi sé komið á þyngdarstjórnunar kerfi líkamans þegar aðgerð er gerð. Einnig er nauðsynlegt að skilja vel hvað hverju aðgerð breytir og hvað hún gerir ekki. Til að fá besta mögulega langtímaárangur af aðgerð skiptir miklu máli að vera tilbúinn og vel nestaður í þá óvissuferð sem við tekur eftir aðgerð því hver líkami svarar slíku inngripi á ólíkan hátt. Enn meira máli skiptir að vera tilbúinn að vinna með breyttan líkama eftir aðgerðina. Eftir aðgerð tekur við ævilangt verkefni við að styðja líkamnn til að vinna sem best til að viðhalda jafnvægi á þyngdarstjórnunarkerfunum. Við önnumst einnig reglubundið eftirlit fyrsta árið eftir þar til einstaklingur útskrifast til ævilangrar eftirfylgdar í heilsugæslu.
Mikilvægt er að taka fram að þátttaka á þessu námskeiði veitir ekki sjálfkrafa rétt til að fá greiðsluþátttöku SÍ. Til viðbótar við námskeiðið fara fram viðtöl og rannsóknir og á námskeiðinu eru upplýsingar um það ferli. Allir sem fara í efnaskiptaaðgerð eftir undirbúning hjá Mín besta heilsa hitta Erlu Gerði lækni og Hjört skurðlækni. Upplýsingar um tímapantanir er að finna á námskeiðinu. Metið er hvort þörf er á meðferð hjá öðrum fagalilum fyrir aðgerð og sú meðferð hafin. Mismunandi er hve langan tíma það tekur að uppfylla þessi skilyrði eftir heilsufarslegri stöðu og fleiri þáttum hjá hverjum einstaklingi. Þegar hægt er að votta að skilyrði fyrir greiðsluþátttöku séu uppfyllt er send inn viðeigandi umsókn til Sjúkratrygginga. Sumir fara í aðgerð á Landspítala en eins og staðan er í dag fara flestir frá okkur í aðgerð í Svíþjóð. Við vinnum í góðri samvinnu við GB Obesitas sjá nánar; www.gboisland.com. Biðlisti fyrir aðgerð í Svíþjóð er stuttur og hægt er að fara í aðgerð fljótlega eftir að staðfesting á greiðsluþátttöku SÍ hefur borist.
Kjósir þú að fara í efnaskiptaaðgerð og greiða fyrir hana úr eigin vasa hvort sem það er hjá GBObeistas eða annarstaðar, mælum við með því að þú farir í gegnum góðan undirbúning og þá getur þetta námskeið verið mjög hjálplegt.
Ef þörf er á miklum undirbúningi vegna líkamlegrar, andlegrar eða félagslegrar heilsu, er skynsamlegra að undirbúningur fyrir aðgerð fari fram á Reykjalundi. Beiðni um meðferð á Reykjalundi er hægt að fá í þinni heilsugæslu.
Skráning veitir aðgang að fræðsluefni í 6 mánuði. Þú getur tileinkað þér námsefnið þegar þér hentar, á þínum hraða.
Samhliða námskeiði er hægt að fá aðstoð við að tileinka sér námsefnið í stuðningstímum sem fram í litlum hópum og eru bæði á staðnum hjá okkur og á netinu. Stuðnings tímarnir eru útskýrðir á námskeiðinu og eru ekki innifaldir í verði námskeiðanna.
Námskeiðin okkar eru lifandi og í stöðugri uppbyggingu. Sum myndbandanna eru upptaka frá okkar fyrri námskeiðum og aðrar upptökur eru glænýjar. Við erum stöðugt að vinna að nýju efni og útbúa ný verkfæri sem hægt er að nota.