Fræðsla

MÍN BESTA HEILSA

Fræðsla

Það er svo ótal margt sem væri gaman að fjalla um hér í tengslum við heilsuna okkar þyngdarstjórnun, offitu, mataræði, streitu, líðan og allskonar málefni. Áherslan hjá okkur núna er að bæta fræðsluna á námskeiðunum og koma þeim vel af stað. Við munum setja inn fræðslu hér smátt og smátt á næstu mánuðum og vonum að þið kíkið hér inn af og til. Við erum bara rétt að byrja.

Set hér inn smá uppælýsingar um lyfin: Fyrir hverja hentar lyfjameðferð við offitu?

Miklar framfarir hafa orðið á meðferð sjúkdómsins offitu undanfarin ár meðal annars með tilkomu nýrra lyfja. Þekking á þyngdarstjórnunarkerfum líkamans fer líka hratt vaxandi enda er góð þekking á þeim grunnurinn til að skilja hvernig inngrip eins og lyf virka og til að ná árangri með meðferð þeirra. Markmið lyfjameðferðar er að veita líkamanum aðstoð til að koma jafnvægi á þessi kerfi. Mikilvægt er að átta sig á því að það er ekki góð hugmynd að nota lyfin til að þvinga líkamann til að léttast með sveltisástandi og nota þau sem megrun. Líkaminn þarf að bregðast við því með mótvægisaðgerðum og þyngdin kemur fljótt til baka og jafnvel meira til. Það eru eðlileg viðbrögð sem hægt er að komast hjá ef rétt er að farið. Þess vegna er mikilvægt að vanda mataræði samhliða lyfjameðferðinni.

Lyfin sem eru á markaði  hér til meðferðar við offitu eru Saxenda (Liraglutid) stungulyf gefið einu sinni á dag. Læknar mega ávísa þessu lyfi til einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 eða yfir 27 með fylgisjúkdóma offitu. Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í kostnaði við lyfjameðferð hvar afnumin 1 nóvember 2023.

Ef einstaklingur er bæði með sykursýki og offitu er ráðlagt að nota lyfið Ozempic sem er, semaglutid, og er hægt að sækja um lyfjaskírteini ef sykursýki er til staðar.

Lyfið Wegovy sem er semaglutid eins og Ozempic, er komið á markað til að nota hjá einstaklingum með offitu. Það er stungulyf gefið einu sinni í viku. Læknar mega ávísa þessu lyfi til einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 eða yfir 27 með fylgisjúkdóma offitu. Hægt að hefja meðferð með Wegovy sem einstaklingur greiðir sjálfur. Lyfið kostar um 27 þúsund á mánuði upp að 1 mg en dýrara við hærri skammta. 1 nóvember 2023 voru birtar upplýsingar um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna lyfsins sem eru mjög strangar. Likamsþyngdarstuðull þarf að vera yfir 45 og til staðar alvarlegir fylgikvillar sem hafa verið meðhöndlaði án árangurs í amk 6 máuði. Meðferð þarf að vera í höndum teymis. Til eru undantekningar við mjög alvarlega sjúkdóma og líkamsþyngdarstuðul yfir 35. Mig langar að taka fram að fagfólk sem að þessari meðferð kemur er mjög ósátt við þessa óréttlátu breytingu og við vonum að þessar reglur verði endurskoðaða og rýmkaðar hið fyrsta.

  1. Saxenda (liraglutid) er ekki lengur með greiðsluþátttöku SÍ. Lyfið er stungulyf, gefið einu sinni á dag.
    • Þau skírteini sem eru í gildi munu halda sínum gildistíma.
    • Meðferðinni má halda áfram en þá á eigin kostnað. Við mælum  frekar með að skipta yfir í Wegovy ef einstaklingar borga meðferðina sjálfir. Bæði er nýja lyfið öflugra, yfirleitt minni aukaverkanir og lyfið er mun ódýrara.
  2. Wegovy (semaglutid) er komið á markað og það er sama lyf og Ozempic sem skráð er við sykursýki. Þetta er stungulyf sem gefið er einu sinni í viku.
    • Lyfið er með greiðsluþátttöku SÍ fyrir einstaklinga yfir 45 í líkamsþyngdarstuðli (BMI) með alvarlega fylgisjúkdóma sem ekki hefur tekist að meðhöndla með öðrum leiðum í amk 6 mánuði. Sem dæmi um slíka sjúkdóma má nefna, alvarlegan háþrýsting, sykursýki II með langtímasykri (HbA1c) > 48 mmol/mol, kæfisvefn (meðal svæsinn eða svæsinn). Einnig geta einstaklingar yfir 35 í BMI með lífshættulega fylgikvilla (s.s. eru að bíða eftir líffæragjöf eða eru með alvarlega hjartabilun) fengið greiðsluþátttöku lyfsins. Sjá nánar á sjukra.is https://island.is/s/sjukratryggingar/frett/2023-11-01-nytt-lyf-til-thyngdarstjornunar-er-komid-i-greidsluthatttoeku
    • Þessu til viðbótar er sett það skilyrði að meðferð fari fram í sérhæfðum teymum. Það er í sjálfu sér mjög gott þar sem sjúkdómurinn er flókinn og margþættur en gallinn er sá að slík teymi eru mjög fá og ekki fylgir sögunni að veita eigi fjármagn til að setja upp slík teymi. Þannig er þessi þjónusta í boði á Reykjalundi, Kristnesi og hjá Mín besta heilsa. Sumar heilsugæslur hafa til staðar teymi fagaðila til að veita meðferð með Wegovy.
    • Hægt er að fá  Wegovy ávísað fyrir einstaklinga yfir 30 í BMI og yfir 27 með fylgikvilla. Þessa meðferð þurfa þó einstaklingar að greiða sjálfir. Verð lyfsins er um 27 þús kr á mánuði.
  3. Ozempic er nú komið með strangari skilyrði um greiðsluþátttöku. Lyfið er stungulyf gefið einu sinni í viku.
    • Ætlað til meðferðar við sykursýki og þarf nú að reyna fleiri en eitt lyf með almennri greiðsluþátttöku í amk 6 mán án viðunandi árangurs áður en hægt er að sækja um greiðsluþátttöku fyrir Ozempic við sykursýki. Þessi ráðlegging er í andstöðu við bæði klíniskar leiðbeiningar um meðferð sykursýki og meðferð offitu þar sem mælt er með þessu lyfi ef sjúklingur hefur báða sjúkdómana.
  4. Qsiva kom á markað á Íslandi 1 oktober 2024 til meðferðar við offitu. Lyfið er í töfluformi sem teknar eru einu sinni á dag. Læknar geta ávísað lyfinu til einstaklinga sem eru með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 eða yfir 27 með fylgisjúkdóma svo sem háþrýsting, sykursýki af tegund 2 eða blóðfituröskun. Qsiva er samsett úr tveimur lyfjum, annars vegar tompiramat og hins vegar fentermín. Lyfið hefur áhrif á stýrikerfi svengdar og seddu í heilanum og minnkar matarlyst. Topiramat hefur verið notað lengi við flogaveiki og þá í mun stærri skömmtum en hér um ræðir. Hætta er á fósturskaða ef lyfið er notað á meðgöngu og því mjög mikilvægt að nota örugga getnaðarvörn hjá konum á barneignaraldri á meðan á töku lyfsins stendur. Ekki eru komnar fram upplýsingar frá Sjúkratryggingum um hvernig eða hvort lyfið verður með greiðslulátttöku Sjúkratrygginga.

Greiðsluþáttaka SÍ vegna efnaskiptaaðgerða

Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í efnaskiptaaðgerðum vegna offitu

Einstaklingur sem óskar eftir greiðsluþáttöku getur valið um tvær leiðir til að fá undirbúning og staðfestingu á að hann hafi lokið undirbúningi og uppfylli skilyrði. Önnur leiðin er gegnum offitumeðferð Reykjalundar og hin leiðin er í gengum undirbúning hjá Mín besta heilsa þar sem hægt er að sækja fræðslu á námskeiðinu Fræðsla fyrir aðgerð og hitta lækna sem hafa sérhæft sig í offitumeðferð ásamt öðrum fagaðilum sem á þarf að  halda. Eftirfarandi er haft að leiðarljósi:

  • Einstaklingur óskar eftir að fara í aðgerð
  • Er yfir 40 í LÞS eða yfir 35 með ákveðna fylgisjúkdóma s.s. sykursýki, hjartasjúkdóm eða kæfisvefn. Metið er hve mikla heilsufarslega áhættu offitan hefur í för með sér og þar eru margir þættir teknir til greina.
  • Skilur eðli aðgerðarinnar og afleiðingar hennar
  • Er reyklaus
  • Er ekki með virkan fíknisjúkdóm eða aðra sjúkdóma sem geta haft áhrif á árangur aðgerða
  • Er tilbúinn til að tileinka sér þær breytingar á lífsháttum sem aðgerð felur í sér og vera í ævilöngu eftirliti og áttar sig vel á sínu hlutverki í meðferðinni

Undirbúningur hjá Mín besta heilsa felst annars vegar í fræðslu. Hvaða aðgerð á við og afhverju. Skilja hvað breytist, hvað breytist ekki, hvar liggur óvissan, hverju þarf að fylgjast með og hvert á að leita ef eitthvað kemur uppá. Það gerum við á námskeiðinu; Fræðsla fyrir aðgerð

Hins vegar felst undirbúningur í að koma líkama og sál í sitt besta jafnvægi. Koma reglu á daglegt líf, nærast vel og koma sjúkdómum ef til staðar eru í jafnvægi. Leiðeiningar um þau skref er líka að finna á námskeiðinu. Í viðtölum er sett upp áætlun um hvað hver einstaklingur þarf að gera fyrir aðgerð til að vinna að bættri heilsu fyrir aðgerð. Þegar þessari áætlun hefur verið fylgt er hægt að senda inn umsókn um greiðslu SÍ. 

Mjög mismunandi er hve langan tíma undirbúningsferlið áður en beiðni er send. Algengt er að það taki frá tveim til sex mánuðum eftir viðtal ef markvisst er unnið en getur líka tekið lengri tíma. Mikilvægt er að líta á þetta tímabil sem tækifæri til að bæta heilsu og hámarka líkur á langvarandi árangri en ekki sem biðtíma. Fyrsta skrefið er að fræðast og skoða hvaða leið hentar best.

Shopping Cart